Icelandair flutti 260 þúsund farþega í millilandaflugi í september og voru þeir 21% fleiri en í september á síðasta ári. Í tilkynningu segir að framboðsaukning hafi verið 21% á milli ára og að sætanýting hafi numið 79,7% samanborið við 77,6% í september 2013. Farþegum fjölgaði mest á N-Atlantshafsmarkaðinum eða um 33,9%.

Farþegar í innanlands- og Grænlandsflugi voru um 26 þúsund í september sem er aukning um 4% á milli ára. Sætanýting nam 75,1% og jókst um 3,9 prósentustig samanborið við september 2013. Nýting véla í leiguflugsverkefnum var 85,7% samanborið við 96,7% í fyrra, en skýringin er sú að ein vél var í viðhaldsskoðun í mánuðinum.

Fraktflutningar drógust saman um 3% frá því á síðasta ári. Fjöldi seldra gistinótta á hótelum félagsins jókst um 17% á milli ára. Herbergjanýting var 81,3% og var 11,5 prósentustigum hærri en í september 2013.