*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 10. apríl 2012 17:41

Farþegum Icelandair fjölgaði um 23% á milli ára í mars

Farþegum Icelandair fjölgaði um 18% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi. Farþegum Flugfélags Íslands fjölgar einnig nokkuð.

Ritstjórn

Icelandair flutti tæplega 119 þúsund farþega í mars sl., sem er 23% fjölgun á milli ára í marsmánuði. Framboð félagsins í mánuðinum jókst um 15% á milli ára.

Þá flutti félagið um 305 þúsund farþega á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, sem er 18% aukning á milli ára en framboðið jókst á sama tíma um 11%.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum frá Icelandair Group en heildarfjöldi farþega hjá Icelandair í fyrra nam tæplega 1,75 milljón farþega, samanborið við tæplega 1,5 milljón farþega árið 2010 og tæplega 1,3 milljón farþega árið 2009. Farþegafjöldi félagsins jókst þannig um 18% á milli ára  fyrra.

Sætanýting Icelandair í mars var 81% og jókst um 4,3% á milli ára. Þá hefur sætanýtingin jafnframt aukist um 4,3% á milli ára það sem af er þessu ári. Sætanýtingin á síðasta ári var um 79% og jókst um 1% á milli ára. Það var jafnframt besta sætanýtingin í sögu félagsins.

Mikill samdráttur í leiguflugi en fraktflutningar taka við sér

Farþegum Flugfélags Íslands, sem jafnframt er í eigu Icelandair Group, fjölgaði um 7% á milli ára í mars en félagið flutti tæplega 30 farþega í mánuðinum. Framboð félagsins jókst um 2% á milli ára í mars. Sætanýtingin nam um 75,6% og jókst um 5% á milli ára í mars og hefur nú aukist um 1,6% á milli ára það sem af er ári. 

Flugfélag Íslands flutti um 353 þúsund farþega á síðasta ári sem þýðir 3% fjölgun farþega á milli ára. Fyrir utan það að farþegum fjölgaði í innanlandsflugi lagði félagið einnig aukna áherslu á flug til Grænlands á árinu. Sætanýting félagsins jókst um 1% á milli ára í fyrra.

Nýting flugflota sem nýttur er til útleigu en er í eigu Icelandair Group dróst saman um rúm 11% á milli ára í mars og hefur þannig dregist saman um 8% á milli ára það sem af er þessu ári. Hér er átt við vélar í eigu samstæðunnar, meðal annars vélar sem leigðar eru út á vegum Lofteidir Icelandic, sem nýttar eru til leiguverkefna á vegum samstæðunnar. Nýting flugflotans dróst saman um 1% á milli ára á síðasta ári, líkt og árið áður.

Fraktflug á vegum Icelandair Cargo jókst um 12% á milli ára í mars og hefur aukist um 19% á milli ára það sem af er þessu ári. Aukningin í fraktflugi jókst um 7% á milli ára í fyrra, samanborið við 4% aukningu árið 2010.

Þá jókst nýting hótelherbergja í eigu samstæðunnar um tæp 12% á milli ára í mars og hefur þá aukist um rúm 9% það sem af er ári. Nýting hótelherbergja samstæðunnar á síðasta ári jókst um tæp 2% á milli ára. Framboð hótelherbergja á vegum samstæðunnar jókst um 11% á milli ára í mars og hefur aukist um 13% það sem af er ári. 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is