Í apríl flutti Icelandair 273 þúsund farþega og voru þeir 29% fleiri en í apríl á síðasta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Framboðsaukning á milli ára nam 25% og sætanýting var 82,6% og jókst um 2 prósentustig samanborið við sama mánuði í fyrra og hefur aldrei verið hærri í apríl.

Farþegar Flugfélags Íslands voru 26 þúsund í apríl og fjölgaði um 6% á milli ára. Framboð félagsins var aukið um 11% samanborið við apríl 2016. Sætanýting nam 63,3%. Fjöldi seldra blokktíma í leiguflugi jókst um 4% á milli ára. Fraktflutningar jukust um 1% frá því á síðasta ári. Herbergjanýting á hótelum félagsins nam 72,9% samanborið við 74,3% í fyrra.