Icelandair flutti rúmlega 136 þúsund farþega í maí sl., sem er 22% fjölgun á milli ára en aukninguna má að hluta skýra vegna þeirra tafa sem urðu á flugi í maí í fyrra þegar gosið hófst í Eyjafjallajökli.

Heildarfjöldi farþega það sem af er ári nemur rúmlega 509 þúsund sem er 22% aukning á milli ára.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum frá Icelandair Group en heildarfjöldi farþega hjá Icelandair á síðasta ári nam tæplega 1,5 milljón, samanborið við tæplega 1,3 milljón farþega árið 2009. Í tilkynningu félagsins nú segir að eldgosið í Eyjafjallajökli á síðasta ári og í Grímsvötnum á þessu ári skekki eitthvað samanburð á milli ára.

Sætanýting Icelandair í maí var rúm 77% sem er 2% aukning á milli ára. Sætanýtingin fyrstu fimm mánuði ársins nemur 74,5% og hefur aukist um tæp 5% á milli ára.

Farþegum Flugfélagsins fjölgar annan mánuðinn í röð

Farþegum Flugfélags Íslands, sem jafnframt er í eigu Icelandair Group, fjölgaði um 28% á milli ára í maí þegar félagið flutti tæplega 27 þúsund farþega. Farþegafjöldi félagsins hefur þá aukist tvo mánuði í röð en síðustu níu mánuði þar á undan hafði farþegum félagsins fækkað á milli ára.

Farþegum félagsins hefur þannig fjölgað um 8% á milli ára fyrstu fimm mánuði þessa árs.

Enn stendur nýting hótelherbergja í stað

Nýting flugflota í eigu Icelandair Group jókst á milli ára í maí eða um 1,7%. Hér er átt við allar vélar í eigu samstæðunnar, meðal annars vélar sem leigðar eru út á vegum Lofteidir Icelandic. Nýting flugflotans jókst um 1% á milli ára á síðasta ári og hefur aukist um tæp 5% á milli ára fyrstu fimm mánuði þessa árs.

Fraktflug á vegum samstæðunnar jókst um 9% á milli ára í maí en líkt og í farþegafluginu þarf að hafa í huga að nokkur skerðing var á fraktflugi á sama tíma í fyrra vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Samdrátturinn í fraktflugi á síðasta ári nam um 4% en aukningin á fyrstu fimm mánuðum þessa árs nemur 6% á milli ára.

Þá stóð nýting hótelherbergja í eigu samstæðunnar í stað á milli ára í maí og stendur jafnframt í stað það sem af nemur þessu ári. Nánast engin hreyfing hefur verið í nýtingu hótelherbergja á milli ára sl. ár.