Farþegar Icelandair í maí voru samtals 367 þúsund, sem er 10% fjölgun miðað við sama tímabil á síðasta ári. Framboð flugferða jókst um 15% og sætanýting var 77,7% samanborið við 81,2% í maí á síðasta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Icelandair Group.

Air Iceland Connect flutti 27 þúsund farþega og fækkaði þeim um 7% á milli ára. Að sögn Icelandair Group felst skýring þessarar fækkunar í því að félagið hætti í maí síðastliðinn flugi til Aberdeen og Belfast, auk þess sem flugi milli Keflavíkur og Akureyrar var hætt. Sætanýting var 62%.

Mikil aukning var í seldu leiguflugi, en fjöldi seldra blokktíma í leiguflugi jókst um 40%. Fleiri langtímaverkefni á þessu ári en því síðasta er sögð ástæða fyrir þessari aukningu. Fraktflutningar jukust einnig um 11% á milli ára.

Herbergjanýting á hótelum félagsins var 72,8% en í fyrra var hún 77%. Framboð á hótelherbergjum á vegum félagsins jókst um 6%, en opnun Konsúlat hótelsins í miðbæ Reykjavíkur skýrir þá aukningu að miklu leyti.