Mikil fjölgun var meðal farþega sem flugu með Wow air, sé júní 2015 borið saman við sama mánuð ári fyrr. Þannig var fjöldi farþega 83 þúsund í júní í ár, sem er aukning um 49% frá fyrra ári. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að sætanýting hafi batnað um 8% á milli ára, en hún var 84% í júní í ár.

„Framboð flugferða hjá WOW air hefur aukist um 40% frá 2014.  Ég er mjög ánægður með að við náum að bæta sætanýtinguna verulega miðað við þessa gríðarlegu framboðsaukningu á tímabilinu. Við bættum við fjórum áfangastöðum í Evrópu; Róm, Billund, Tenerife og Dublin. Einnig bættum við tveimum áfangastöðum í Norður-Ameríku, Washington, D.C. og Boston. Miðað við þær frábæru móttökur sem við höfum fengið er ljóst að við munum halda áfram að stækka og bæta við fleiri áfangastöðum á næsta ári beggja vegna Atlantshafsins“ er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra og stofnandi WOW air í tilkynningu.

Áfangastaðir Wow air eru nú 20, í Evrópu og Norður-Ameríku. Fjöldi flugvéla í flota félagsins nemur sex í sumar, en í fyrra voru þær fjórar. Þrjár eru af gerðinni Airbus A321, þrjár A320 og ein A319.