Wow air flutti 139 þúsund farþega til og frá landinu í febrúar eða um 34% færri farþega en í febrúar árið 2018. Þá var sætanýting WOW air 84% en var 88% í sama mánuði á síðasta ári. Þá fækkaði framboðnum sætum um 28% á milli ára. Hlutfall tengifarþega var 39% í febrúar en var 40% fyrir ári.

Eins og fjallað var um í fréttum í morgun lögðu Indigo Partners, sem eiga í viðræðum við Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda Wow air, um að koma með 9 milljarða inn í félagið fram ný skilyrði á fimmtudaginn fyrir viku sem gætu þýtt tugprósenta afskriftir skuldabréfaeigenda félagsins.

„Miðað við aðstæður er ég mjög sáttur hvernig okkur hefur tekist til í febrúar og ánægjulegt að sjá þann mikla stuðning sem við höfum verið að fá frá farþegum okkar,“ segir Skúli.

„Við erum að sjá bætingu víða í rekstrinum og má þar nefna stundvísi félagsins sem er 81% það sem af er ári en var á sama tíma í fyrra 47%.  Ég vil nota tækifærið og þakka okkar frábæra starfsfólki fyrir þennan árangur og við munum vinna ótrauð áfram í bjóða virka samkeppni í flugi til og frá Íslandi öllum til hagsbóta.“

Í sumar mun WOW air fljúga til sex áfangastaða í Norður Ameríku; Boston, Washington DC, New York, Detroit, Toronto og Montréal. Þá hefst aftur áætlunarflug til Mílanó, Barcelona og Lyon í maí og til Stokkhólms og Tel Aviv í júní.