WOW air flutti 160 þúsund farþega til og frá landinu í janúar eða um 26% færri farþega en í janúar árið 2018. Þá var sætanýting WOW air 80% en var 88% í sama mánuði á síðasta ári. Þá fækkaði framboðnum sætum um 19% á milli ára. Wow air fækkaði flugvélum í flota sínum úr 20 í 11 sem skýrir minna sætaframboð. Þá sagði félagið upp á fjórða hundrað manns í desember.

Hlutfall tengifarþega stóð í stað á milli ára og var 51% í janúar.

Í tilkynningu frá Wow air segir að flugfélagið muni fljúga til 26 áfangastaða í Evrópu og Norður Ameríku í sumar, þar með talið Boston, Washington DC, New York, Detroit, Toronto og Montreal. Þá muni áætlunarflug hefjast á ný til Tel Aviv í júní.

Lítið hefur verið gefið upp um gang viðræðna Wow við Indigo Partners, sem stefnir á að kaupa 49% hlut í flugfélaginu. Félögin hafa út febrúarmánuð til að ganga frá samkomulagi um fjárfestingu í Wow air, en þá rennur frestur sem skuldabréfaeigendur veittu til að komast að niðurstöðu út.