Fasteignafélagið Fast-1 slhf. hagnaðist um 489 milljónir króna á fyrri helmingi ársins. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri fyrirtækinsins.

Hagnaðurinn rúmlega tvöfaldaðist á milli ára, en á sama tíma í fyrra nam hann 229 milljónum króna. Þar munar mestu um matsbreytingu fjárfestingareigna sem var nú jákvæð um 504 milljónir króna, en hún var neikvæð um 267 milljónir króna í fyrra.

Eignir félagsins í lok tímabilsins námu 21,66 milljörðum króna en skuldir voru 13,85 milljarðar króna. Eigið fé fyrirtækisins í lok tímabilsins nam því 7,8 milljörðum króna.

Gildi lífeyrissjóður er stærsti hluthafi Fast-1 og á 21,2% í félaginu. Þá á Lífeyrissjóður verzlunarmanna 19,6% eignarhlut í fyrirtækinu.