Landsbankinn hefur í dag gert breytingu varðandi innheimtu lántökugjalds af íbúðalánum til einstaklinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. „Breytingin mun í langflestum tilfellum leiða til þess að lántakendur greiða mun lægra lántökugjald en áður. Í stað þess að lántökugjald nemi tilteknu hlutfalli af lánsfjárhæð innheimtir Landsbankinn nú fasta upphæð eða 52.500 krónur við hverja lántöku,“ kemur fram í tilkynningunni.

Landsbankinn tekur einnig dæmi um lántökugjald og kostnað af 20 milljóna íbúðaláni, þar sem að einstaklingur hefði áður þurft að greiða 155 þúsund krónur miðað við gamla kerfið. Í staðinn þá borgar einstaklingur fasta gjaldið 52.500 krónur.

Einnig kemur fram í fréttatilkynningunni að: „Margir sem taka íbúðalán hjá Landsbankanum taka einnig viðbótarlán. Bankinn lánar allt að 70% kaupverðs til allt að 40 ára og veitir 15% viðbótarlán til allt að 15 ára. Í slíkum tilfellum er lántökugjald innheimt eins og um eitt lán væri að ræða, þ.e. 52.500 krónur, miðað við verðskrá bankans 6. október 2016.“