Kolbeinn Óttarsson Proppé, upplýsingafulltrúi Strætó bs., sakar Fréttablaðið um rógburð og dylgjur. Ástæðan er sú að í Fréttablaði dagsins er því haldið fram að Strætó hafi greitt 700 milljónir til Hagvagna umfram það sem samið hafði verið um.

„Strætó bs. vísar þessum dylgjum og rógburði um að fyrirtækið hafi farið fram úr samningum heim til föðurhúsanna. Allar greiðslur til Hagvagna, og annarra undirverktaka, hafa verið eftir þeim samningum sem gerðir voru árið 2010. Það er leitt að fjölmiðlar hafi slegið vitleysunni upp, þrátt fyrir að hafa fengið skýringar á ákvæði um aukningu aksturstíma í samningnum,“ segir í tilkynningu frá Strætó bs. vegna málsins.

Kolbeinn segir að greiðslurnar eigi sér eðlilegar skýringar. „Samningarnir gera beinlínis ráð fyrir því að hægt sé að auka akstur, og þar með greiðslur fyrir hann, um allt að 40% án þess að endursemja um grunneiningaverð. Akstur strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist umtalsvert á samningstímanum og greitt hefur verið fyrir það, eftir ákvæðum samningsins. Akstur Hagvagna hefur til að mynda aukist um 28,8% og fyrir það hefur verið greitt eftir samningnum. Það er því röng fullyrðing að farið hafi verið fram úr samningi, hann gerir beinlínis ráð fyrir möguleikanum á akstursaukningu og greiðslum í samræmi við það,“ segir einnig í tilkynningunni.

Gera kröfu um lögreglurannsókn

Í kjölfar ummæla Strætó bs. hefur Félag hópferðaleyfishafa sent frá sér tilkynningu. Þar er farið fram á að lögregla rannsaki greiðslur Strætó til undirverktaka sem hafa unnið fyrir Strætó í kjölfar útboða að undanförnu. Í tilkynningunni segir að ljóst sé að greiðslurnar sem Strætó greiddi undirverktökum séu talsvert hærri en útboðsgögn og verðbætur samkvæmt samningum. Mismunurinn hlaupi á hundruðum milljóna króna.

Sérstaklega er óskað eftir því að tvö útboð verði rannsökuð. Annars vegar akstur almenningsvagna innan höfuðborgarsvæðisins þar sem Strætó gerði samning við Hagvagna í kjölfar útboðs. Uppreiknað samningsverð lægstbjóðanda sé mun lægra en þær greiðslur sem voru greiddar í raun.

Hins vegar er óskað eftir að útboð þar sem samið var við Hópbíla ehf. sé rannsakað. Í því tilviki var útboðið einnig á vegum Strætó bs. „Samið var við Hópbíla ehf. um greiðslur framhjá útboði (sem staðfest hefur verið hjá dómstólum að var ólögmætt) upp á 130 milljónir króna á ári en raungreiðslur námu um 230 milljónum fyrir árið,“ segir í tilkynningunni.

Stjórn Félags hópferðaleyfishafa vill þó árétta að ekki sé verið að fullyrða að um saknæmt athæfi sé að ræða. Tilefni sé þó til að rannsaka málin til hlítar vegna þessa mikla mismunar á umsömdu verði og raungreiðslum í tengslum við útboð Strætó.