Evrópski sjónvarpsrisinn Bonnier og SAM félagið sem er stærsti kvikmyndaleyfishafi Íslands hafa undirritað samning við Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um að sjónvarpsstöðvar Fast TV verði aðgengilegar heimilum sem tengd eru ljósleiðaraneti OR.

Í frétt á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur kemur fram að undanfarið hefur Fast TV unnið að því að stækka þjónustusvæði sitt í Skandinavíu og kemur nú inn á íslenskan markað að tilstuðlan samstarfsaðila síns, SAM félagsins. Samningur felur í sér miðlun á sífellt vaxandi vöruframboði Fast TV og SAM félagsins sem samanstendur af sjónvarpsrásum og kvikmyndum sem hægt verður að leigja á gagnvirkan hátt í gegnum sjónvarp með einfaldri aðgerð á fjarstýringu.

Rótgróin fyrirtæki á íslenskum markaði

Stephan Guiance, framkvæmdastjóri Fast TV, kveðst ánægður með samninginn. ?Við erum mjög ánægðir með að fá tækifæri til að vinna þetta verkefni með OR sem er að koma inn á íslenskan markað með leiðandi tækni til miðlunar á hvers konar stafrænu efni. Samstarf okkar við SAM-félagið tryggir okkur aðgang að markaðsþekkingu og rótgrónu merki á íslenska markaðnum. Með þessu er stigið mikilvægt skref í átt að umhverfi sem gerir áhorfandanum auðveldara að velja á milli síaukins úrvals myndefnis. Um leið stækkar markaðssvæði okkar sem skapar að sjálfsögðu ný tækifæri,? segir Stephan.

Framkvæmdarstjóri SAM-félagsins, Björn Árnason segir samninginn félaginu mikil hvatning. ?Það að fá Fast TV sem er einn af leiðandi aðilum á þessu sviði í Skandinavíu í samstarf við SAM félagið við miðlun sjónvarpsefnis opnar á marga möguleika. Samstarfið gefur okkur því tækifæri til að koma með nýja, spennandi þjónustu á samkeppnishæfu verði inn á markaðinn.?

Þjónustuaðilum á ljósleiðaraneti OR fjölgar jafnt og þétt

Jónatan S. Svavarsson hjá OR segir feng í því að fá svo öfluga aðila til samstarfs. ?Fast TV og SAM-félagið eru traustir aðilar sem getið hafa sér gott orð bæði hérlendis sem utanlands. Þeir hafa mikla reynslu af miðlun afþreyingarefnis og eru sannkallaðir fagmenn á því sviði. Ég fagna því að fá þessa aðila í ört stækkandi hóp fyrirtækja sem veita þjónustu á ljósleiðaraneti OR.?

Orkuveita Reykjavíkur á og rekur öflugt ljósleiðaranet sem nú þegar þjónar fyrirtækjum og stofnunum sem skilvirkt leiðakerfi fyrir gagnaflutning á orkuveitusvæðinu. OR mun tengja öll heimili í Reykjavík, Seltjarnarnesi, Akranesi og Hveragerði við ljósleiðaranetið og reka netið sem ?opið net". Tenging heimila við opið net gerir hvaða þjónustuaðila sem er kleift að veita margvíslega þjónustu yfir netið, þ.m.t. síma, internet, sjónvarp, myndefni, öryggisvöktun o.fl

Um FastTV

FastTV .net er þjónustuaðili sjónvarpsefnis yfir kapalkerfi og er í eigu Evrópska sjónvarpsrisans Bonnier. FastTV sérhæfir sig í að dreifa sjónvarpi um kapalkerfi í Skandinavíu. Með systurfyrirtæki sínu, SF Anytime bíður FastTV upp á gagnvirkt sjónvarps- viðmót með fjölda sjónvarpsstöðva, pöntuðu sjónvarpsefni (Video-On-Demand), interneti og tölvupósti í gegnum sjónvarp. FastTV var stofnað í Janúar 2003, og veitt sjónvarpsefni í Danmörku og Noregi síðan janúar 2004. Bonnier Entertainment hefur nú keypt meirihluta í FastTV. Sjá nánari upplýsingar á www.fasttv.net.