Íslenska ríkið greiddi 450 milljónir króna í húsaleigu vegna sendiskrifstofa og sendiráðsbústaða á síðasta ári. Hæsta leigan er greidd vegna skrifstofu fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Leiga vegna hennar kostaði 56,8 milljónir króna í fyrra, eða um 4,7 milljónir króna á mánuði.

Sex manns starfa hjá fastanefndinni samkvæmt upplýsingum af vefsvæði hennar. Hún er staðsett við þriðja breiðstræti Manhattan, milli 49. og 50. götu í Midtown-hverfinu. Hús Sameinuðu þjóðanna er í um eins kílómetra fjarlægð.

Húsnæði sendiráðsins í London kostar einnig skildinginn. Það er í Knightsbridge-hverfinu í vesturhluta borgarinnar, nærri Buckingham Palace. Í um 200 metra fjarlægð frá sendiráði Íslands er sendiráð Ekvador þar sem Julian Assange, ritstjóri Wikileaks, hefur dvalið síðan 2012. Leiga sendiráðsins í London kostaði 47,5 milljónir í fyrra.

Ríkið leigir átta sendiráðsbústaði, en þrettán bústaðir eru í ríkiseigu. Af þeim bústöðum sem ríkið á er sá dýrasti einnig vegna fastanefndarinnar í New York. Hann kostaði 20,7 milljónir króna í fyrra, eða 1,7 milljónir króna á mánuði. Sendiráðsbústaðurinn í Peking er sá næstdýrasti en hann kostaði 1,3 milljónir á mánuði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .