Garðabær hefur samið við Eignarhaldsfélagið Fasteign um kaup þess á Garðabæ fasteignafélagi sem stofnað var um uppbyggingu Sjálandsskóla. Í samningnum felst að Fasteign ehf. kemur til með að hafa umsjón með framkvæmdum við skólann og eiga og reka bygginguna. Bygging skólans hófst í sumar og hefur Fasteign hf. annast og fjármagnað byrjunarframkvæmdirnar samkvæmt samstarfssamningi við Garðabæ. Garðabær getur keypt fasteignina síðar, t.d. að uppbyggingu lokinni, telji bæjarstjórn það þjóna hagsmunum bæjarins.

Undirbúningur skólans hefur gengið vel. Bygging hans hófst í sumar eftir undangengin útboð en fyrsti áfangi hans verður 3.800m2. Gert er ráð fyrir að byggingarkostnaður verði um 670 m.kr. með virðisaukaskatti og fjármagnskostnaði á byggingartíma.

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti að semja við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. á fundi sínum fyrr í þessum mánuði. Í greinargerð með tillögu bæjarstjóra um málið kemur fram að einkahlutafélagið Garðabær fasteignafélag var stofnað fyrr á þessu ári til að hafa umsjón með byggingu skólans. Samningurinn sem nú hefur verið undirritaður felur í sér að Fasteign hf. kaupi hlutafé bæjarins í Garðabæ fasteignafélagi ehf., samtals að fjárhæð kr. 118.000.000 og greiði fyrir það með hlutabréfum í Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. að sömu upphæð á nafnverði. Garðabær gerist þannig eignaraðili að félaginu á sömu kjörum og stofnaðilar þess. Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. hefur umtalsverða sérstöðu meðal félaga sem sérhæfa sig í rekstri og útleigu fasteigna þar sem viðskiptavinir þess eru eingöngu fjármálafyrirtæki og opinberir aðilar.

Margháttaður ávinningur

"Sú reynsla sem þegar er komin á samstarf Garðabæjar og Fasteignar hf. er ein ástæða þess að ákveðið var að semja við Fasteign hf. um áframhaldandi uppbyggingu skólans. Það er mat Garðabæjar að samstarfið hafi nú þegar skilað jákvæðum ávinningi og hagkvæmni við gerð mannvirkisins," segir í frétt á heimasíðu Garðabæjar.

Þar segir ennfremur að ávinningur af samstarfi við félagið felst m.a. í því að í stóru og sérhæfðu fasteignafélagi liggur mikil reynsla í uppbyggingu og rekstri fasteigna. Í krafti stærðarinnar hefur félagið tækifæri til að njóta betri vaxtakjara en sveitarfélagið og einnig nýtist sérfræðiþekking félagsins í því að ná niður byggingarkostnaði og viðhaldskostnaði fasteignarinnar. Þar að auki er það ávinningur fyrir Garðabæ að binda ekki fé í fasteignum og minnka skuldsetningu. Áhættu sveitarfélagsins við byggingu skólans er haldið í lágmarki því allur kostnaður er fyrirfram umsaminn við fasteignafélagið. Kaupverð félagsins með afhendingu á hlutabréfum í Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. tryggir Garðabæ á ákveðinn hátt aðild að málefnum félagsins og jafnframt nýtur Garðabær ávöxtunar í formi arðs af hlutabréfaeign sinni í félaginu.

Hægt að kaupa fasteignina eftir að uppbyggingu lýkur

Í viðræðum við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. var lögð rík áhersla á að Garðabær gæti keypt fasteignina eftir að uppbyggingu og fjármögnun skólans lyki. Í samningnum við Fasteign hf. er tekið fram að sveitarfélagið geti keypt fasteignina eftir fimm ár og einnig innan skemmri tíma komist samningsaðilar ekki að samkomulagi um frekari uppbyggingu skólans segir í frétt á heimasíðu Garðabæjar.