38,7 milljörðum króna var lýst í þrotabú FG-5 ehf., sem áður hét Fjárfestingafélagið Gaumur. Samþykktar kröfur námu 22,3 milljörðum króna. Skiptum á búinu lauk 22. mars síðastliðinn og fengust samþykktar veðkröfur að fjárhæð 27,8 milljónum króna að fullu greiddar. 14,9 milljónir fengust upp í aðrar kröfur, sem námu samtals 22,2 milljörðum.

Jóhannes Karl Sveinsson, skiptastjóri búsins, segir að tólf kröfur hafi borist í búið. Stærstu kröfurnar voru frá þrotabúi Baugs og Kaupþingi og námu þær samtals 11,6 milljörðum. Sparisjóðabankinn var með kröfu upp á 3,7 milljarða og LBI með kröfu upp á um það bil tvo milljarða. Ein fasteign var í búinu og greiddist krafa vegna hennarað fullu. Aðrar eignir búsins voru ýmsir lausamunir, húsgögn og málverk.

Átti 75% í Baugi

Fjárfestingarfélagið Gaumur var að mestu í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóhannesar Jónssonar, Ásu K. Ásgeirsdóttur og Kristínar Jóhannesdóttur. Félagið var stofnað árið 1989. Það hét upprunalega Bónus-Ísaldí og hélt utan um rekstur Bónus-verslananna, en varð síðan að fjárfestingarfélagi Baugs-fjölskyldunnar. Auk þess að vera stærsti einstaki hluthafi Baugs með um 75% hlut fjárfesti félagið í hinum ýmsu fyrirtækjum, meðal annars í Flugleiðum, Samherja og Latabæ, svo dæmi séu tekin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .