Hagnaður FÍ Fasteignafélags slhf. nam á fyrstu sex mánuðum ársins 194,5 milljónum króna, samanborið við 43,8 milljóna króna tap á sama tíma árið 2014. Matsbreytingar fjárfestingaeigna nam á fyrri helmingi þessa árs 264,6 milljónum króna og ef ekki hefði komið til þeirra hefði félagið skilað um 70 milljóna króna tapi á tímabilinu.

Leigutekjur jukust nokkuð á milli ára, námu 215 milljónum á fyrri helmingi síðasta árs, en voru 309,4 milljónir á fyrri helmingi þessa árs. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar nam 188,7 milljónum og rekstrarhagnaður eftir matsbreytingar nam 453,3 milljónum króna. Eignir félagsins námu í júnílok 8,9 milljörðum króna, eigið fé var 2,1 milljarðar og skuldir um 6,8 milljarðar.

FÍ fasteignir er fasteignafélag að mestu í eigu lífeyrissjóða og var stofnað árið 2012.

Félagið vinnur að stækkun í samræmi við skilmála og fjárfestingastefnu, og hefur nýtt um meira en helming fjárfestingargetu sinnar. Fjárfestingarnar voru fjármagnaðar með stækkun skuldabréfaflokks félagsins um 1,4 milljarða króna að nafnvirði, en einnig var hlutafé félagsins hækkað um 2.923.000 hluti á genginu 100.

Félagið hóf fjárfestingar í maí 2013 og er unnið samkvæmt fjárfestingastefnu sem samþykkt hefur verið af stjórn félagsins. Á árinu 2013 lauk félagið kaupum á tveimur eignum og undirritaði kaupsamning vegna þriggja eigna í desember 2013. Á árinu 2014 var lokið kaupum á þremur eignum til viðbótar og hefur eignasafnið fjórfaldast frá árslokum 2013. Á árinu 2015 var gengið frá kaupum á Hverfisgötu 103 - Hótel Skuggi. Einnig var gengið frá kaupum á tveimur fasteignum í lok ársins 2015, öll fasteignin Víkurhvarf 3 og hluta af Bankastræti 7 en greiðsla og formleg afhending eignanna var í byrjun árs 2016.

Miðað við bókfært verð fjárfestingaeigna er meðalverð á fermetra um 373 þúsund krónur. Þann 30. júní 2016 var nýtingarhlutfall fasteigna félagsins 98%.