Verði fullnustueignir sem Íbúðalánasjóður hefur tekið yfir settar inn í sérstakt eignarhaldsfélag má gera ráð fyrir því að tap þess muni nema einum til tveimur milljörðum króna á ári næstu árin. Þetta er niðurstaða starfshóps um stöðu og horfur um efnahag Íbúðalánasjóðs, sem ríkisstjórnin fjallaði m.a. um á fundi sínum í morgun.

Ríkisstjórnin fundaði um stöðu Íbúðalánasjóðs í morgun og ákvað að leggja honum til allt að 13 milljarða króna af fjárlögum. Framlagið kemur til viðbótar við 33 milljarða framlag til sjóðsins fyrir tæpum tveimur árum. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði í samtali við vb.is ekki útilokað að Íbúðalánasjóður þurfi á frekara fjármagni að halda.

ÍLS tekur fleiri fasteignir yfir

Fram kemur í skilabréfi starfshópsins að sjóðurinn hafi átt rúmlega 2.000 íbúðir um mitt ár sem bókfærðar eru á 30 milljarða króna. Þá segir starfshópurinn að gera megi ráð fyrir því að íbúðunum muni fjölga um 1.000 til 1.500 á næstu árum.

Starfshópurinn segir sömuleiðis landfræðilega dreifingu fasteignanna áhyggjuefni en aðeins um 20% fasteignanna eru á höfuðborgarsvæðinu.

Starfshópurinn bendir á, að félagið sem hugsanlega taki yfir fasteignir Íbúðalánasjóðs kaupi þær miðað við fasteignamat og sjái félagið alfarið um rekstur þeirra og sölu. Til álita komi að hið nýja félag taki yfir skuldir sem samsvari kaupvirði eignanna.