Fjármálaeftirlitið og Eik fasteignafélag gerðu þann 7. júlí sl. með sér samkomulag um sátt vegna brots félagsins á 122. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Hefur Eik fallist á að greiða sátt að fjárhæð 1,2 milljóna króna.

Málsatvik voru þau að þann 8. janúar 2014 skráði regluvörður Eikar í samskiptaskrá að innherjaupplýsingar væru til staðar hjá félaginu og að aðilar, sem skráðir hefðu verið á lista yfir tímabundna innherja, hefðu fengið miðlað til sín innherjaupplýsingum. Sama dag sendi Eik lista yfir tímabundna innherja til Fjármálaeftirlitsins. Hinn 14. og 17. janúar var svo fleiri aðilum bætt inn á lista yfir tímabundna innherja. Eik vanrækti hins vegar að senda Fjármálaeftirlitinu jafnóðum tilkynningu um að heimild til frestunar á birtingu innherjaupplýsinga hefði verið nýtt þann 8. janúar 2014.

Í samkomulaginu segir að Eik fasteignafélag viðurkenni að hafa brotið gegn lagagreininni með því að hafa ekki tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um frestun á birtingu innherjaupplýsinga jafnóðum og heimild til frestunar hafi verið nýtt hinn 8. janúar 2014 eins og kveðið sé á um í 4. mgr. 122. gr. laganna.