Búið er að undirritað samning á milli Eikar fasteignafélags og Arion banka um kaup Eikar á fasteignafélaginu Landfestum. Eik greiðir með útgáfu á nýju hlutafé og verður Arion banki eftir viðskiptin að stærsta hluthafa Eikar. Stefnt er að því að endurfjármagna Landfestar með útgáfu skuldabréfa á næstu mánuðum og skrá síðan Eik á markað.

Um síðustu áramót voru hluthafar Eik fasteignafélags 30 talsins. Þrír hlutahafar áttu samkvæmt ársreikningi meira en 10% í félaginu, þ.e. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins átti 14,8%, Almenni lífeyrissjóðurinn 13,7% og Lífeyrissjóður verkfræðinga 13,2%.

Landfestar hins vegar í 100% Arion banka.

Hluthafafundur eftir áramót

Hluthafahækkun í tengslum við kaupin verður lögð fyrir hluthafafund Eikar í janúar á næsta ári og er kaupsamningurinn gerður með fyrirvara um samþykki hluthafa, niðurstöðu áreiðanleikakannana og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Fram kemur í tilkynningu að á sama tíma var undirritaður viðauki við kaupsamning Eikar á ákveðnum eignum SMI ehf. frá 23. ágúst síðastliðnum.

Eftir kaupin verður Eik eitt af stærstu fasteignafélögum landsins með um eitt hundrað eignir sem telja um 272 þúsund fermetra og verður heildarfjöldi leigutaka yfir fjögur hundruð. Efnahagur sameinaðs félags verður um 60 milljarðar króna þar sem helstu eignirnar verða meðal annars Borgartún 21 og 26, Smáratorg 1 og 3, Glerártorg, Skútuvogur 16, Austurstræti 5, 6, 7 og 17 og Þingholtsstræti 3-5. Meirihluti tekna sameinaðs félags verða frá eignum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.