Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins, hringi Kauphallarbjöllunni svokölluðu þegar viðskipti hófust með hlutabréf félagsins við hátíðlega athöfn í dag. Fjölmargir gestir voru viðstaddir í tilefni skráningarinnar.Helgi sagði áður en viðskipti hófust að með henni sé stefnt að dreifðu eignarhaldi á félaginu.

Þetta er fyrsta fasteignafélagið sem skráð er á hlutabréfamarkað hér en Reginn fékk strax á fyrsta degi eitt sæti af sex sem mynda Úrvalsvísitöluna.

Helstu eignir Regins eru verslanamiðstöðin Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi auk ýmis konar húsnæðis sem leigt er til atvinnustarfsemi, svo sem í verslanarekstri. Landsbankinn stofnaði félagið utan um eignir sem það tók yfir í kjölfar hruns og á eftir skráninguna tæpan 26% hlut í því.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, benti á það í erindi sem hann hélt, að Reginn er fyrsta félagið sem skráð er á markað hér á árinu og það fjórða sem skráð er á hlutabréfamarkað á Nasdaq OMX á Norðurlöndunum. Skráning Haga-samstæðunnar um miðjan desember í fyrra var fyrsta Kauphallarskráningin hér á landi í tæp fjögur ár. Skipti, móðurfélag Símans og tengdra félaga, var á hlutabréfamarkaði til skamms tíma vorið 2008.

Eftir að Helgi hafði hringt Kauphallarbjöllunni fylgdist Páll ásamt gestum með fyrstu viðskiptunum með hlutabréf Regins á markaði. Gengi hlutabréfa Regins var selt á genginu 8,2 krónur á hlut í hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar á dögunum. Það stendur nú í 8,45 krónum á hlut og jafngildir það 3% hækkun frá útboði.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, flutti stutta tölu við skráningu Regins á markað.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, flutti stutta tölu við skráningu Regins á markað.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, flutti stutta tölu.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Starfsfólk Regins var viðstatt skráningu fasteignafélagsins á markað.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, var viðstaddur skráningu Regins á markað. Bankinn á fjórðungshlut í fasteignafélaginu.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, hringir Kauphallarbjöllunni. Með honum á myndinni er starfsfólk fasteignafélagsins.