Fasteignafélagið Reitir tapaði 628 milljónum króna á síðasta ári. Félagið hagnaðist um rétt rúma fjóra milljarða króna í hittifyrra.

Reitir er með umfangsmestu fasteignafélögum landsins. Það á 130 eignir víða um land, bæði iðnaðar-, verslunar- og skrifstofuhúsnæði og leigir þær undir atvinnustarfsemi af ýmsum toga. Á meðal eigna Reita eru Kringlan, Hótel Hilton, Kauphallarhúsið og Holtagarðar. Stefnt er að skráningu félagsins í lok árs þegar endurskipulagningu skulda lýkur.

Fram kemur í uppgjöri Reita að tekjur hafi numið 7.658 milljónum króna í fyrra sem er 34 milljónum krónum mera en árið á undan. Þá nam rekstrarhagnaður, hagnaður af rekstri fyrir skatta og gjöld, 5.550 millónum króna. Það er 28 milljónum krónum meira en árið 2010.

Helstu breytingarnar á afkomu fasteignafélagsins liggja í þróun fjármagsnliða. Hrein fjármagnsgjöld í fyrra námu tæpum 7 milljörðum króna samanborið við rúma 2 milljarða árið 2010.

Guðjón Auðunsson, sem hér er á myndinni, er forstjóri Reita.