Á sama tíma og fasteignasafn Reita hefur vaxið um 28 milljarða á þremur árum í 126 milljarða í heildina hefur hlutfall hótela í fasteignasafni félagsins farið úr 10% í 17%. Eik fasteignafélag hefur aukið bókfært virði hótela í eignasafni sínu um rúma fjóra milljarða á sama tíma og nam það um 6 milljörðum króna í lok síðasta ár að því er Morgunblaðið greinir frá.

Á þessu tímabili hefur fasteignasafn félagsins vaxið um 50 milljaðra og nam það 77 milljörðum í lok ársins 2016, svo hlutfall hótela hefur lítið breyst, eða frá 7,8% í 8%. Hins vegar þegar við bætist að Eik keypti í byrjun mars fasteignirnar sem hýsa Icelandair Hotel Reykjavik Marina er hlutfallið orðið 13%.

Staðsettu sig í miðbænum

Fasteignafélagið Reginn á svo fjórar hótelfasteignir, sem telja um 12% af eignasafni félagsins. Bókfært virði þeirra eru tæplega 10 milljarðar af 84 milljarða heildarvirði fasteigna félagsins. Á síðustu þremur árum hefur bókfærða virði heildarsafnsins aukist um 44 milljarða, en ekki var byrjað að sundurgreina virði hótela fyrr en í síðasta ársreikningi.

Garðar Hannes Friðjónsson forstjóri Eikar segir að til lengri tíma muni ferðaþjónustan frekar styrkjast en veikjast. „Jafnframt höfum við lagt áherslu á staðsetningar þegar kemur að hótelum og er nánast allt eignasafn félagsins í hótelum í miðbæ Reykjavíkur,“ segir Garðar Hannes. „Hins vegar má telja ólíklegt að félagið auki hlutfall hótela af heildareignasafninu mikið úr því sem komið er.“

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins segir að félagið sé rólegt yfir því að dregið hafi úr vexti ferðaþjónustunnar, hún sé í blóma og hún muni haldast í blóma um ókomna tíð. „Við ætlum okkur að vera áfram sterk í þessum flokki fjárfestinga og styrkja okkur þar í vel hugsuðum skrefum,“ segir Helgi.

Guðjón Auðunsson forstjóri Reita stefnir að því að hlutfall hótela verði með sama hætti áfram hjá félaginu. „Við stefnum að því að eignasafn félagsins haldi áfram að vaxa.“