Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,11%, niður í 1.760,35 stig í 2,1 milljarða viðskiptum. Aðalvísitala Skuldabréfa hækkaði hins vegar meira, eða um 0,12% í 4,9 milljarða viðskiptum og fór hún upp í 1.363,90 stig.

Mest lækkun var á gengi bréfa Eikar fasteignafélags, eða um 2,28% í 160 milljón króna viðskiptum. Fór gengi bréfanna niður í 10,30 krónur hvert bréf. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Regins, eða um 1,86% í 127 milljón króna viðskiptum og var lokagengi bréfanna 26,35 krónur.

Mesta hækkunin var á gengi bréfa Origo, áður Nýherja, eða 1,32% en í litlum viðskiptum, eða fyrir 20 milljónir króna. Fæst nú hvert bréf í félaginu á 26,95 krónur.

Næst mest hækkun var svo á bréfum Icelandair, eða 1,09%, en jafnframt voru mestu viðskiptin með bréf félagsins, eða fyrir 382 milljónir króna. Fóru gengi bréfanna upp í 16,30 krónur.