Úrvalsvísitala kauphallar Íslands hélst yfir 1.900 stiga markinu, eða í 1.909,63 stigum, eftir að öll félög, utan HB Granda, sem viðskipti voru með í kauphöllinni í dag lækkuðu í verði. Hækkun HB Granda nam 2,20% í 134 milljóna viðskiptum og fóru bréfin upp í 30,15 krónur.

Bréf fasteignafélaganna Reginn og Eikar lækkuðu mest í viðskiptum dagsins, Reginn lækkaði um 4,61%, niður í 19,65 krónur, í 130 milljóna króna viðskiptum, en Eik lækkaði um 4,38% í 137 milljóna króna viðskiptum og eru þau nú verðlögð á 8,07 krónur.

Mestu viðskiptin voru eftir sem áður með bréf Marel, eða fyrir 801 milljón krónur, en þau lækkuðu um 0,56% sem er jafnframt minnsta lækkunin, og enduðu bréfin í 533,0 krónum.

Fyrir utan svo bréf Heimavalla sem eru á leið út úr kauphöllinni, og Sjóvá sem engin viðskipti voru með heldur, lækkuðu bréf Icelandair næst minnst, eða um 1,10% í 184 milljóna viðskiptum.

Er verð bréfa félagsins nú á 9,00 krónur, en eins og lesendur Viðskiptablaðsins vita hefur einn helsti keppinautur félagsins, Wow air verið mikið í fréttum í dag vegna þess að ekki náðist samkomulag um aðkomu fjárfesta að félaginu og endurskipulags þess.