Fjárfestirinn og kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson á ekki lengur fasteignafélög í Danmörku. DV greindi frá því í júlí í fyrra að átta félög sem tengjast fasteignaviðskiptum hans þar hafi ýmist orðið gjaldþrota eða í gjaldþrotameðferð. Eina félagið sem honum tengist og ekki sé í vanræðum sé dreifingar- og framleiðslufyrirtækið Scanbox Entertainment. ALMC, áður Straumur, var helsti lánardrottinn félagsins og hefur nú tekið það yfir að fullu.

Fasteignafélögin ýmist gjaldþrota eða tekin yfir

Fasteignafélögin heyrðu mörg undir félagið VG Investment, sem Sigurjón keypti árið 2005 fyrir 900 milljónir danskra króna, jafnvirði tæpra 9 milljarða íslenskra króna á þávirði. Íslandsbanki, síðar Glitnir, fjármagnaði kaupin að hluta.

Umsvifamesta fasteignafélag Sigurjóns í Danmörku var SD-Karrén. Það glímdi við mikinn vanda árið 2008 en skuldir þess samkvæmt danska viðskiptablaðinu Börsen voru þá tvöfalt hærri en sem nam bókfærðu virði þeirra. Félagið var selt á nauðungaruppboði árið 2010 fyrir 240 milljónir danskra króna. Það nú hluti af eignasafni Saxo bank.

Vill bætur frá þrotabúi Glitnis

Greint var frá því í morgun að Sigurjón hafi stefnt Glitni, áður Íslandsbanka, vegna viðskipta hans við bankann. Samkvæmt upplýsingum VIðskiptablaðsins lagði Sigurjón verulega fjármuni til fasteignafélaga sinna. Á hinn bóginn telur hann að Glitnir hafi m.a. brotið lög um fjármálafyrirtæki í tengslum við viðskiptin á margvíslegan hátt og krefur hann þrotabúið um bætur vegna taps af verkefninu. Fyrirtaka er í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.