Gengi bréfa Regins hefur hækkað um 1,8% það sem af er degi í um 163 milljóna króna viðskiptum. Þá hefur gengi bréfa Eikar hækkað um 0,96% í 13 milljóna viðskiptum og Reita um 0,83% í 1.169 milljóna króna viðskiptum.

Ástæðan er, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, nýtt virðismat sem IFS greining gaf út um Reginn. Þar er mælt með kaupum á bréfum félagsins og virðismatsgengið sagt vera 18,4 krónur á hlut. Gengi félagsins núna er 17,0 krónur á hlut. Markgengi Regins eftir tólf mánuði er að mati IFS 20,9 krónur á hlut.

Í Virðismatinu segir að Reginn hafi unnið hratt úr eignasafni Fastengis frá því í júní, sem auki virði félagsins, en búist er við að nýtingarhlutfall safnsins verði komið í 90% um mitt næsta ár, 1-2 árum fyrr en áætlað var. Safn Fastengis var með 56% útleiguhlutfall þegar Reginn tók við því og tólf vikum síðar var félagið búið að selja 6.315 fermetra og hafði gert nýja leigusamninga fyrir 9.700 fermetra sem myndu taka gildi á 1-6 mánuðum og nýtingarhlutfallið yrði þá komið í 78%.

Þessi jákvæða greining á Regin hefur greinilega haft áhrif á fasteignafélögin öll, enda er nær öll velta á hlutabréfamarkaði í morgun vegna viðskipta með bréf félaganna þriggja.