Hlutabréf fasteignafélaganna Reginn og Eik hækkuðu töluvert í dag í ljósi fregna um yfirtökutilboð frá stjórn fasteignafélagsins Regins. Reginn hækkaði um 6,96% við lokun Kauphallarinnar í dag og Eik um 4,81%.

Tómas Kristjánsson, stjórnarformaður fasteignafélagsins Regins, keypti meðal annars í dag hluti í félaginu fyrir 80,5 milljónir króna.

Verði tilboð Regins um yfirtöku á Eik samþykkt verður markaðsvirði félagsins 77 milljarðar, sem þýðir að það verður eitt stærsta félag Kauphallarinnar. Gangi þessar áætlanir eftir mun félagið „sækja fram undir nýju nafni“.

Play hélt einnig áfram að hækka annan daginn í röð. Gengi flugfélagsins hækkaði um 0,99% og er hluta bréfaverð félagsins nú 10,20 krónur á hvern hlut. Icelandair hækkaði þar að auki um 1,08% og nam velta félagsins 334 milljónir króna.

Engin hreyfing var á gengi Hampiðjunnar en vert er að minnast á að hlutabréf fyrirtækisins verði tekin til viðskipta aðalmarkaði á morgun.