Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,88% í 2,3 milljarða króna veltu Kauphallarinnar í dag. Meira en helmingur veltunnar var á hlutabréfum Arion banka og Marel.

Arion hækkaði mest allra félaga í dag eða um 1,6% í 570 milljóna viðskiptum og standa bréf bankans nú í 70,8 krónum á hlut. Marel hækkaði um 1,3% í 751 milljón króna veltu en gengi félagsins stóð í 709 krónum við lokun Kauphallarinnar.

Gengi Icelandair er komið niður í 1,15 krónur, sem er um 0,15 krónum hærra en útboðsgengi í komandi hlutafjárútboði. Velta hlutabréfa flugfélagsins nam þó einungis 6,1 milljón króna.

Festi lækkaði næst mest eða um 1,8% í 246 milljóna viðskiptum. Fasteignafélögin Eik, Reginn og Reitir lækkuðu öll í dag en gengi félaganna þriggja hefur fallið um meira en 15% frá 23. júlí síðastliðnum. Eik lækkaði mest þeirra í dag eða um 1,8%, Reginn lækkaði um tæplega 1% og Reitir um 0,4%.