Fasteignafélögin þrjú sem skráð eru á innlendum hlutabréfamarkaði – Eik, Reginn og Reitir – hafa öll skilað uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung. Eik hagnaðist um 963 milljónir króna, Reitir um 757 milljónir og Reginn um 707 milljónir. Samanlagður hagnaður félaganna nam því um 2,4 milljörðum og dregst hann saman um 46% frá sama tímabili í fyrra vegna hærri rekstrarkostnaðar og lægri matsbreytinga fjárfestingareigna.

Hagnaður Eikar og Reita eykst milli ársfjórðunga en hagnaður Regins minnkar. Á hinn bóginn eykst hagnaður Regins frá sama tíma í fyrra en hagnaður Eikar og Reita dregst saman.

Á fyrstu níu mánuðum ársins nemur hagnaður Regins 2,7 milljörðum borið saman við tæplega 1,9 milljarða í fyrra. Hagnaður Eikar á sama tímabili stendur í 2,4 milljörðum borið saman við 3,1 milljarð á síðasta ári, og hagnaður Reita er 1,5 milljarðar en var 5,2 milljarðar í fyrra.

Eik með hæsta NOI-hlutfall

Fasteignafélög eiga, leigja og reka atvinnuhúsnæði á borð við verslunar- og skrifstofuhúsnæði, og kemur megnið af rekstrartekjum frá leigu.

Reitir höfðu mestu leigutekjurnar á þriðja ársfjórðungi, eða 2,6 milljarða. Leigutekjur Regins voru 1,6 milljarðar og Eikar 1,4 milljarðar. Leigutekjur allra félaganna hafa farið vaxandi það sem af er ári og eru þær allar hærri miðað við sama tímabil í fyrra. Rekstrarkostnaður félaganna hefur vaxið hraðar en tekjur milli ára og skýrist það m.a. af hækkun fasteignagjalda auk viðhalds, endurbóta, hliðrunar á verkefnum og endurskipulagningar eigna.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir (e. net operating income, NOI) eru tekjur (einkum leigutekjur) af fasteign eða fasteignasafni að frádregnum rekstrarkostnaði. NOI er gjarnan notað á fasteignamarkaði til að fá vísbendingu um arðsemi í rekstri fasteigna. NOI Reita nam 1,8 milljörðum á þriðja ársfjórðungi og um 1,2 milljörðum hjá bæði Eik og Regin, og vex hann bæði frá öðrum ársfjórðungi og frá sama tíma í fyrra hjá öllum félögunum.

NOI hlutfallið (hlutfall NOI af leigutekjum) sýnir hve hátt hlutfall leigutekna stendur eftir þegar búið er að draga frá rekstrarkostnað og gefur vísbendingu um hagkvæmni í rekstri. Hlutfallið var 78,7% hjá Eik, um 73,8% hjá Regin og um 69,5% hjá Reitum.

Fermetrinn skilar 4.050 kr.

Ef litið er til bókfærðs virðis fjárfestingareigna eiga Reitir verðmætasta fasteignasafnið, en safnið var bókfært á 127,7 milljarða í septemberlok. Í eignasafni Reita eru um 140 fasteignir og skilaði hver fasteign að meðaltali 5,4 milljónum í hagnað til félagsins á þriðja ársfjórðungi. Alls eru um 440 þúsund fermetrar í fasteignasafni Reita, sem þýðir að hver fermetri í safninu skilaði NOI upp á um 4.150 kr.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .