Hlutabréfamarkaðurinn var líflegur í viðskiptum dagsins. Heildarvelta nam 3,5 milljörðum króna í alls 226 viðskiptum. Hlutabréf níu félaga hækkuðu í virði, hlutabréf tveggja félaga stóðu í stað og bréf átta félaga lækkuðu. Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um þriðjung af prósentustigi og stendur í 2.223 stigum.

Hlutabréf fasteignafélaganna leiddu hækkanir dagsins. Mest hækkuðu hlutabréf Regins um tæplega þrjú prósent í 58 milljóna króna veltu. Næst mest hækkuðu bréf Eikar um 2,7% og þriðja mesta hækkunin var á bréfum Reita, um 1,9%.

Mest lækkuðu hlutabréf Sýnar, um tæplega fimm prósent í 177 milljóna króna veltu. Hlutabréf félagsins standa í 34 krónum eftir lokun markaða. Bréf Sýnar lækkuðu um þrettán prósent um hádegisbil og fóru bréfin niður í 31,15 krónur. Fyrirtækið birti árshlutauppgjör í gær. Jákvæður viðsnúningur var á rekstri félagsins á þriðja ársfjórðungi.

Mest velta var með hlutabréf Marel, um 765 milljónir króna í 25 viðskiptum. Bréf félagsins lækkuðu um 0,85%. Næst mest velta var með bréf Festi, um 493 milljónir og lækkuðu bréf félagsins næst mest eða um 1,8%. Festi birti einnig árshlutauppgjör í gær en afkoma fyrirtækisins dróst saman um fimmtung milli ára.