Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,7% í 3,9 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag. Sextán af átján félögum hlutabréfamarkaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins og tvö stóðu í stað.

Fasteignafélögin Eik, Reitir og Reginn leiddu lækkanir á markaðnum. Eik lækkaði mest í dag eða um 2,95% í 75,3 milljóna króna veltu. Þrátt fyrir það hafa bréf Eik hækkað um 8,74% undanfarinn mánuð. VÍS lækkaði næst mest eða um 2,5% í 148 milljóna króna viðskiptum..

Mesta veltan var með hlutabréf Símans, eða um 1,1 milljarður, sem lækkaði um 1,5% í dag. Gengi fjarskiptafélagsins hefur lækkað um rúm 5,5% síðan það birti uppgjör fyrir rúmri viku síðan. Þar að auki lækkuðu hlutabréf Marel í dag um 1,8% og velta með hlutabréf fyrirtækisins nam 512 milljónum króna.