Fasteignafélagið Eik leiddi hækkanir á aðalmarkaði Kauphallar Nasdaq á Íslandi í dag. Bréf Eikar hækkuðu um 5,17% í 76 milljóna króna viðskiptum og hafa nú hækkað um 67% í ár. Fasteignafélagið Reitir fylgdi þar á eftir í 3,27% hækkun í 119 milljóna króna viðskiptum. Svo til öll félög hækkuðu í viðskiptum dagsins, sem námu alls 8,3 milljörðum króna og úrvalsvísitalan hækkaði um 2,14%.

Gengi Play hækkaði um 4,29% í 202 milljóna króna viðskiptum á First North markaðinum. Hlutabréfaverð Play stendur nú í 29,2 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra frá skráningu flugfélagsins í Kauphöllina í júlí.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 1,6% í 3,35 milljarða veltu. Gengi Arion náði sínum hæstu hæðum í 192 krónum við lokun Kauphallarinnar. Næsta mesta veltan var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 3% í 1,5 milljarða viðskiptum.

Gengi hlutabréfa Iceland Seafood lækkaði mest í viðskiptum dagsins, um 1,20% í 79 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa Icelandair lækkaði um 0,60% í 82 milljóna króna viðskiptum.