Það sem af er degi hefur úrvalsvísitalan hækkað nokkuð í kauphöll Nasdaq Iceland, en hún ásamt virði flestra fyrirtækja í kauphallarinnar lækkaði í gær eins og Viðskiptablaðið greindi frá við lokun markaða. Þau fyrirtæki sem leiddu lækkunina í gær voru fasteignafélögin þrjú, þar af lækkaði virði bréfa Regins mest.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um gæti lækkunin hafa komið til vegna áhrifa vaxtaákvörðunar Seðlabankans á ávöxtunarkröfu, en einnig mögulega umfjöllun í fjölmiðlum um hvernig gengi að leigja út rými í stærstu eign félagsins, Smáralindinni.

Ræddi blaðið í kjölfarið við Sturlu Gunnar Eðvarðsson framkvæmdastjóra Smáralindarinnar sem sagði fullyrðingar Fréttablaðsins vera af og frá.

Reginn hækkar nú mest

Þegar þetta er skrifað leiðir Reginn á ný sveifluna á markaðnum, en í þetta sinn í hina áttina með 3,90% hækkun í 120 milljón króna viðskiptum. Eik kemur fast á hæla þess með 3,81% hækkun í 187 milljón króna viðskiptum og loks nemur hækkun Reita 2,27% í 274 milljón króna viðskiptum.

N1 lækkar hins vegar enn mest, eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun, eftir að hafa birt árshlutauppgjör sitt í gær. Nemur lækkunin nú 5,81% í 246 milljón króna viðskiptum.

Einu félögin sem hækkuðu í gær í virði, Icelandair, Nýherji og Marel hafa öll lækkað það sem af er viðskiptadegi, og er lækkunin frá 0,32% upp í 0,92%, en í afar litlum viðskiptum í flestum tilvikum.