Fasteignafélögin þrjú í kauphöllinni, Reginn, Reitir og Eik hækkuðu mest í viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði.
Samtals námu viðskiptin með bréf félaganna þriggja nærri 1,3 milljörðum króna, af 4,2 milljarða króna heildarviðskiptum á markaðnum í dag, en í þeim hækkaði Úrvalsvísitalan um 0,15%, upp í 2.335,52 stig.

Mest hækkaði gengi bréfa Regins, eða um 6,12%, í þó minnstu viðskiptunum af fyrirtækjunum þremur, eða fyrir 187 milljónir króna. Lokagengi bréfa fasteignafélagsins nam 20,38 krónum eftir viðskipti dagsins. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Reita, eða um 5,32%, upp í 64,30 krónur, í 534 milljóna króna viðskiptum.

Hækkun Eikar fasteignafélags var nokkuð minni eða um 3,67%, upp í 9,05 krónur, en viðskiptin með bréfin námu 550 milljónum sem jafnframt voru þriðju mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag.

Síminn nær nýjum hæðum

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Símans, eða fyrir 621,2 milljónir króna, en í þeim hækkuðu bréfin um 1,13%, upp í 8,07 krónur sem er hæsta dagslokagengi í sögu félagsins. Mestu viðskiptin voru eins og svo oft áður með bréf Marel, eða fyrir 696,1 milljón króna, en lækkun bréfanna um 0,72%, niður í 694 krónur, var sú næst mesta í kauphöllinni í dag.

Einungis bréf Brim lækkuðu meira, eða um 3,61%, niður í 48 krónur, í 87 milljón króna viðskiptum. Þriðja mesta lækkunin var með bréf TM, eða um 0,58%, niður í 47,40 krónur, í 87 milljón króna viðskiptum.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í dag seldi Sigurður Viðarsson bréf í félaginu fyrir um 85 milljónir króna, nú í aðdraganda sameiningar félagsins við Kviku banka, en Morgunblaðið segir hann hafa selt til að greiða upp lán sem hvíli á félagi í hans eigu.

Talsverð styrking krónunnar

Gengi krónunnar heldur áfram að styrkjast gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, sem var í flestum tilvikum á bilinu frá um 1,5 upp í 2,5% í dag. Þaannig nam veiking svissneska frankans 1,47% gagnvart krónu og fæst hann nú á 143,03 krónur, meðan veiking breska pundsins nam 2,51% gagnvart krónunni og fæst það nú á 170,90 krónur.

Bandaríkjadalur veiktist um 2,02% gagnvart krónunni og fæst nú á 128,15 krónur, meðan evran veiktist um 1,65% gagnvart krónunni og fæst á 154,89 krónur.