Hlutabréf fasteignafélaganna þriggja; Reita, Regins og Eikar hafa lækkað mest á fyrstu tíu mánuðum ársins, að undanskildu Icelandair. Mest hafa bréf Reita lækkað, um rúmlega þriðjung, bréf Reita um næst mest, tæplega 30% og bréf Eikar þriðja mest, um rúmlega tíu prósent. Auk fyrrnefndra félaga lækkuðu hlutabréf Icelandic Seafood, Skeljungs, Arion banka og Eimskips á fyrstu tíu mánuðum ársins. Bréf Eimskips um einungis eitt prósent og bréf Arion um þrjú prósent.

Rekstrarafkoma fasteignafélaganna hefur dregist saman sökum faraldursins en breytta afkomu má að mestu rekja til neikvæðra matsbreytinga. Þannig hefur rekstrarhagnaður Reita fyrir matsbreytingar á fyrri hluta ársins dregist saman um fimm prósent, á milli ára. Sambærilega sögu er að segja af hinum tveimur félögunum. Áhugavert er að markaðsverð þeirra allra er talsvert undir bókhaldslegu virði eiginfjár. Hlutfallið er um 0,65 hjá Regin og Reitum en um 0,8 hjá Eik.

Þremur farsælum hlutafjárútboðum lokið

Á síðustu tveimur mánuðum hafa þrjú kauphallarfyrirtæki lokið við hlutafjárútboð; Icelandair, Reitir og Reginn. Líklegast fór útboð Icelandair ekki fram hjá lesendum Viðskiptablaðsins – enda skipti það öllu máli fyrir lífróður félagsins. Það var sömuleiðis stærsta útboðið og safnaði Icelandair 23 milljörðum króna þar sem fjárfestar skráðu sig fyrir um 37 milljörðum. Útboðinu lauk í september og var útboðsgengið ein króna.

Reitir safnaði alls fimm milljörðum króna í sínu hlutfjárútboði sem fór fram í október. Félagið gaf út 120 milljónir nýrra hluta á útboðsgenginu 43 en rúmlega tvöföld eftirspurn reyndist eftir hlutunum. Í útboði Regins, sem einnig fór fram í október, söfnuðust alls 600 milljónir króna. Félagið gaf út 40 milljón nýja hluti á útboðsgenginu 15 krónur. Fjórföld eftirspurn var eftir nýjum hlutum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .