*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 9. apríl 2021 16:33

Fasteignafélögin upp og smásalan niður

Reitir og Eik hækkuðu mest í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni en Festi og Hagar lækkuðu mest, auk Icelandair.

Ritstjórn

Fasteignafélögin Reitir og Eik leiddu hækkanir dagsins í Kauphöllinni, en smásölufélögin auk Icelandair lækkuðu mest. Heildarvelta á aðalmarkaði nam 4,1 milljarði króna og úrvalsvísitalan hækkaði um 0,64%.

Reitir hækkuðu um 2,43% í 174 milljón króna viðskiptum en Eik fylgdi fast á eftir með 2,33% hækkun í 107 milljóna veltu. Þriðja sætið vermdu Eimskip með 1,44% hækkun í 184 milljónum.

Mest lækkuðu bréf Festis um 1,67% í tæplega hálfs milljarðs króna viðskiptum, þá Icelandair með 1,41% lækkun í 129 milljóna veltu og loks féllu bréf Haga um 1,02% í 118 milljónum.

Mest velta var með bréf Arion banka, sem skiptu um hendur fyrir alls 1,2 milljarða króna í alls 54 viðskiptum. Engin breyting varð á gangvirði bréfanna í viðskiptum dagsins þegar upp var staðið, en innan dags höfðu þau þó fallið lítillega mestan part dags.

Næst veltumest voru bréf Festis með 472 milljóna veltu eins og fyrr sagði, og loks námu viðskipti með bréf Kviku banka alls 426 milljónum króna og skiluðu 0,24% hækkun.

Stikkorð: Kauphöllin Hlutabréf