Þeir sem fjárfesta á fasteignamarkaði og byggingaverktakar kjósa fremur öðru að kaupa fasteignir í Istanbúl í Tyrklandi, Munchen í Þýskalandi og í Varsjá í Póllandi. Þetta kemur fram í könnun endurskoðendafyrirtækisins PricewaterhouseCoopers um fasteignamarkaðinn í Evrópu. Þetta er annað árið í röð sem Istanbúl vermir toppsætið.

Á meðal tíu eftirsóttustu borga Evrópu í augum fjárfesta og verktaka eru Berlín, Stokkhólmur, Hamborg og Zurich. Þá er Moskva komin á listann í fyrsta sinn.

London, höfuðborg Bretlands, hafði um árabil dregið fjárfesta og fasteignaspekúlanta til sín þar til Istanbúl tók fyrsta sætið í fyrra. Í frétt breska dagblaðsins Guardian af málinu segir að fasteignaverð í London þyki alltof hátt miðað við stöðu bresks efnahagslífs. Þá bæti óvissa á evrusvæðinu ekki ástandið. Borgin varð að sætta sig við annað sætið í fyrra. Í ár er London hrunin niður í 10. sætið.

Helsta aðdráttarafl Istanbúl er góður gangur í efnahagslífi borgarinnar. Þá er almennt lítið atvinnuleysi í Munchen, eitt lægsta hlutfallið í Þýskalandi. Varsjá er sömuleiðis hagstæður kostur en borgin nálægt því að verða að fjármálamiðstöð Austur-Evrópu.