*

sunnudagur, 8. desember 2019
Innlent 14. maí 2019 08:37

Fasteignagjöld 18% af tekjum

Hagnaður fasteignafélagsins Reita lækkaði í fyrra. Hækkun fasteignagjalda eykur rekstrarkostnað félagsins.

Ritstjórn
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.
Haraldur Guðjónsson

Fasteignagjöld Reita jukust úr 459 milljónum króna í 541 milljón króna á fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins. Reitir segja í uppgjörstilkynningu að hækkun fasteignagjalda skýri stærstan hluta af auknum rekstrarkostnaði í upphafi ársins, sem jókst um 7,3% milli ára. Fasteignagjöld nema nú um 18% af tekjum. Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, og Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Reginn, hafa sagt að væri að sennilegt að hækkun fasteignagjalda myndi leiða til hærra leiguverðs og greiningardeild Arion banka hefur tekið í sama streng.

Hagnaður Reita lækkaði úr 1,2 milljörðum króna í 997 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Leigutekjur námu 2,88 milljörðum króna miðað við 2,75 milljarða í fyrra og  jukust um 4,5% frá sama tímabili árið 2018. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar jókst hins vegar milli ára, úr 1,86 milljörðum í 1,92 milljarða króna. Matshækkun fjárfestingareigna var 706 milljónir króna en 1,26 milljarðar kóna fyrir ári. 

Nýting eignasafnsins var 95,1% á tímabilinu samanborið við 97,3% á sama tímabili árið 2018. Minni nýting skýrist aðallega af framkvæmdum vegna nýrra leigusamninga. Félagið stendur meðal annars í framkvæmdum í Skaftahlíð 24, vegna nýrra skrifstofa fyrir Landspítalann, en 365 miðlar voru áður þar til húsa. Reitir standa einnig í framkvæmdum í Pósthússtræti 3-5 og Höfðabakka 9 fyrir nýja leigutaka.

Stikkorð: Reitir fasteignagjöld