Fasteignafélög í Dubai, sem tilheyrir Sameinuðu arabísku furstadæmunum, eru í síauknum mæli byrjuð að leita til heimsfrægra einstaklinga á borð við kvikmyndastjörnur og íþróttahetjur til að selja auðkýfingum heimsins eignir í landinu.

Nýjasti hjálparkokkur þeirra úr röðum fræga fólksins er kvikmyndaleikarinn Brad Pitt, sem fenginn hefur verið til að hanna fimm stjörnu hótel og nágrenni fyrir fasteignafélagið Zabeel Properties.

Alls verða 800 herbergi á hótelinu og mun hönnun þess verða „umhverfisvæn” hefur Dow Jones fréttaveitan eftir Pitt. Mun leikarinn vinna í samvinnu við arkitektastofu í Los Angeles, Graft LLC.

Á meðal annarra frægra manna sem lagt hafa fasteignajöfrum Dubai lið má nefna tennisleikarann Boris Becker, tískuhönnuðinn Giorgio Armani og golfleikarann Tiger Woods.

Hneykslismál í fasteignageiranum

Fasteignamarkaðurinn í furstadæminu hefur orðið fyrir talsverðum áföllum að undanförnu í tengslum við fjölda hneykslismála sem eiga rætur að rekja til nokkurra af stærstu fasteignafélögum þar.

Meðal annars hefur fyrrum forstjóri fasteignarisans Deyaar Development verið handtekinn og ásakaður um fjármálamisferli.

Talið er að fasteignaverkefni fyrir 2,4 billjón dollara sé í þróun Sameinuðu arabísku furstadæmunum og nágrannaríkjum þess, Saudí Arabíu, Kuwait, Bahrain, Katar og Oman.

Aðeins í Dubai er gert fyrir að fjárfestingar í fasteignageiranum nemi um 50 milljörðum dollara árið 2010.