Viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn hafa aukið umsvif sín verulega á undanförnum
mánuðum á íbúðalánamarkaði. Leita þarf aftur til ársins 2007 til að finna jafn miklar lánveitingar til íbúðakaupa hjá bönkunum.
Á fyrstu þremur mánuðum ársins hafa bankarnir lánað um 9 milljarða króna til íbúðakaupa á meðan Íbúðalánasjóður lánaði 3 milljarða. Fyrstu þrjá mánuði ársins 2011 var hið gagnstæða fyrir hendi, þá lánuðu bankarnir einungis um 1,5 milljarða á meðan Íbúðalánasjóður lánaði 5 milljarða.

Töluverður viðsnúningur hefur því orðið á íbúðalánamarkaði á undanförnum mánuðum. Minnkandi umfang Íbúðalánasjóðs verður ekki útskýrt með breytingum á fasteignamarkaði því velta á markaðnum hefur aukist um rúmlega 38% á höfuðborgarsvæðinu
fyrstu þrjá mánuði ársins samanborið við fyrstu þrjá mánuði ársins 2011. Það er því ljóst að Íbúðalánasjóður missir stórt hlutfall af útlánum sínum til annarra útlánastofnana. „Viðskiptin eru að sækja í óverðtryggð lán sem við erum ekki að bjóða að svo
stöddu,“ segir Sigurður Erlingsson,framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, um þróunina og aukna hlutdeild bankanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.