Wells Fargo bankinn, stærsti lánveitandi til íbúðakaupa í Bandaríkjunum, hyggst auka við lánveitingar sínar á ný eftir að hafa dregið verulega úr þeim á síðustu árum. Hyggjast þeir sérstaklega lána meira til þeirra sem eru að kaupa í fyrsta sinn, það er til aldamótakynslóðarinnar, sem hefur frestað kaupum undanfarin ár.

Skuggabankar fyllt í skarðið

Er þetta talið merkja að bankar séu loksins að komast yfir fjármálakreppuna, en einnig er talið að þarna séu stóru lánveitendurnar að reyna aftur að ná ná vopnum sínum gagnvart svokölluðum skuggabönkum.

Þeir hafi að einhverju leyti fyllt upp í tómarúmið á markaðnum þegar stóru lánveitendurnir héldu að sér höndum en þeir sitja ekki undir jafnmiklum reglum og stóru aðilarnir því þeir eru fjármagnaðir af venjulegum fjárfestum en ekki innistæðum. Slíkar lánastofnanir hafi aukið verulega hlutfall sitt af ríkistryggðum fasteignalánum í landinu.

Franklin Codel, yfirmaður fasteignalánasviðs Wells Fargo, segir að bankinn hafi „sett málefni efnahagskrísunnar í baksýnisspegilinn.“

Hillary Clinton væntanlegur forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins vill að reglur um skuggabanka verði hertar þar í landi.