*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 1. ágúst 2020 17:24

Mikil aukning í sölu íbúða

Stýrivaxtalækkanir og færri utanlandsferðir hafa ýtt undir hreyfingu á fasteignamarkaðnum, að sögn forstjóra Miklaborgar.

Sigurður Gunnarsson
Óskar R. Harðarson, forstjóri Miklaborgar
Haraldur Guðjónsson

Óskar R. Harðarson, forstjóri fasteignasölunnar Miklaborg, segir að mikil aukning sé í fasteignasölu milli ára. „Fyrst eftir Covid var meiri hreyfing á notuðum íbúðir en á síðustu einum til tveimur mánuðum hefur sala á nýjum íbúðum aukist verulega. Það mun fjölga þinglýstum samningum í ágúst og september.“

Stýrivaxtalækkanir liggja þar helst að baki en einnig gæti ráðstöfunarfé fólks verið meira vegna færri utanlandsferða, að sögn Óskars. Þrátt fyrir aukna sölu hefur hann ekki fundið fyrir verðhækkunum á nýjum íbúðum. Töluvert framboð hafi verið á nýbyggingum síðasta vetur en á móti kemur var lítil hreyfing, meðal annars vegna falls WOW og kjaraviðræðna. 

„Margar nýbyggingar voru búnar að vera í sölu í einhvern tíma en verðin á þessum íbúðum eru þau sömu og þegar þær fóru fyrst í sölu. Þetta eru þá eldri verð og það eru því kauptækifæri á markaðnum.“ Óskar segir að fleiri nýjar íbúðir eru nær því að verða tilbúnar. „Það ýtir undir sölu. Í fyrra var meira um íbúðir að fara í sölu sem voru enn á byggingarstigi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér