Harkalegar aðgerðir kínverskra stjórnvalda til að draga úr ofhitnun hagkerfisins mun valda því að fasteignaverð í Kína mun lækka mjög mikið á næstunni. Þetta er mat Ronnie Chan, stjórnarformanns kínverska fasteignafélagsins Hang Lung Properties sem á nokkrar verslanamiðstöðvar.

Í netútgáfu tímaritsins BusinessWeek, sem fjallar um kínverskan fasteignamarkað, kemur fram að íbúðaeigendur þar í landi megi búast við mestu verðlækkun sem sést hafi frá 2009.

Á meðal aðgerða stjórnvalda sem taldar eru upp í netútgáfu blaðsins eru kröfur um hærra eiginfé í fasteignaviðskiptum en áður sem og aðrar hömlur á fasteignaviðskipti. Þetta hefur nú þegar þrengt mjög að markaðnum og valdið því að fasteignaverð hefur lækkað í 52 borgum af 70 upp á síðkastið. Fasteignaverð í Sjanghæ, Peking og fleiri stórborgum í Kína hefur lækkað í þrjá mánuði samfleytt. Á sama tíma hefur fasteignasala dregist saman um allt að 30% á sumum stöðum.