Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,6% milli júlí og ágúst árið 2019 eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær. Þegar horft er yfir 12 mánaða tímabil hefur vegin árshækkun húsnæðisverðs numið 3,6% en þar af hefur sérbýli hækkað um 3,1% og fjölbýli hækkað um 3,6%.

Í ágúst mældist árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis 3,1% og hefur því raunverð fasteigna hækkað um 0,5% á síðustu 12 mánuðum, sem telst sögulega lítil verðhækkun, en til samanburðar nam árshækkun raunverðs 27% árið 2017. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans .

Rólegt sumar

Viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu voru 508 talsins í ágúst, það gerir 30% lækkun á móts við ágúst í fyrra en síðan í mars 2019 hefur verið fækkun á mánaðarlegum viðskiptum á höfuðborgarsvæðinu.

Greiningardeild Landsbankans hefur áður reynt að skýra þessa breytingu en nefnt var að óvissa vegna kjarasamninga og áfalla í kjölfar gjaldþrots WOW air gæti dregið úr stórum fjárhagslegum fjárfestingum á borð við fasteignakaup. Auk þess er talið líklegt að fólk sé að halda að sér höndum þar til að tillögur um leiðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á fasteignamarkaðinn verði skýrðar.

Hægist á íbúðaruppbyggingu

Á árunum 2016-2018 komu tæplega 2.000 nýjar íbúðir árlega inn á markaðinn en til samanburðar voru það um 550 að meðaltali á árunum 2010-2012 og 1.000 á árunum 2013-2015. Því má segja að markaðurinn tók verulega við sér árið 2016 en strax eru vísbendingar um það minna verði byggt á næstu misserum.

Samt sem áður telja Samtök Iðnaðarins að nú séu um rúmlega 6.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og ætla þau því að íbúðum muni fjölga á næstu misserum þrátt fyrir að það hægist á vextinum.