Í síðustu viku (8.-14. apríl) nam heildarvelta fasteignamarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu 5,3 mö.kr. og því rúmur milljarður á hvern viðskiptadag. Þetta er svipuð velta og mælst hefur síðustu vikur, en allt frá byrjun febrúar hefur meðaldagsvelta á verið á bilinu 900-1.000 m.kr. Upplýsingarnar eru fengnar frá Fasteignamati ríkisins og í útreikningum okkar hefur verið tekið tillit til frídaga segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar er bent á að þegar skoðaðir eru fjöldi samninga kemur í ljós að þeim hefur heldur fækkað og verð í hverjum samningi hefur hækkað. Eftir að bankarnir komu inn á fasteignalánamarkaðinn í lok ágúst 2004 jókst bæði velta og fjöldi kaupsamninga. Á tímabilinu frá 27. ágúst til 31. desember voru að meðaltali gerðir 50 kaupsamningar á dag, samanborið við 34 samninga frá janúar til 26. ágúst.

"Flestir kaupsamningar voru gerðir á tímabilinu október til desember (að meðaltali 53 á dag), en í janúar fækkaði samningum snarlega eins og venja er ár hvert. Það vekur hins vegar athygli að fjöldi samninga hefur ekki tekið við sér að nýju þótt verð haldi áfram að rjúka upp. Í febrúar, mars og til 14. apríl hafa að meðaltali verið gerðir 46 samningar á dag og er meðalverð í samningunum 21,6 m.kr.," segir í Vegvísi Landsbankans.

Verðhækkunum að linna?

Enn er of snemmt að draga ályktanir af þessum fjöldatölum, en ef kaupsamningum heldur áfram að fækka eru líkur á að hægja muni á verðhækkunum. Hér gætu því verið komnar fyrstu vísbendingar um að brátt fari að hægjast um á fasteignamarkaði, en eins og áður hefur komið fram teljum við að draga muni úr verðhækkunum á fasteignamarkaði þegar líða tekur á sumarið.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.