Fasteignaverð um land allt stóð svo gott sem í stað milli mánaða í apríl, en þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,04%, en lækkunin á landsbyggðinni var ívið meiri eða 0,18%. Tólf mánaða hækkun er nú 11,3%.

Hægst hefur mjög á veltu á fasteignamarkaði, en í Vegvísi Landsbankans segir að kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu séu helmingi færri á fyrsta fjórðungi ársins en á sama tímabili í fyrra. Veltan hefur einnig dregist saman um tæplega helming.

„Áhugavert er að skoða í því samhengi þriggja mánaða breytingar á fasteignaverði. Fasteignaverð á landinu hefur hækkað um 0,6% síðustu þrjá mánuði. Þriggja mánaða hækkun á fjölbýli nemur 0,4%. Hins vegar er hækkun á fasteignaverði á landsbyggðinni 3,1%," segir í Vegvísi.