Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu dróst lítillega saman á milli vikna í vikunni sem leið. Þannig nam veltan í vikunni 1.435 milljónum króna samkvæmt tölum frá Fasteignaskrá Íslands, samanborið við 1.503 milljónir króna veltu í vikunni á undan og dróst því saman um 5% á milli vikna.

Fjögurra vikna meðalvelta hækkaði þó á milli vikna, þriðju vikuna í röð, og nemur nú 1.450 milljónum króna, samanborið við 1.354 milljónir í vikunni á undan. Þá hefur fjögurra vikna meðalvelta  hækkað um rúmar 290 milljónir króna á fjórum vikum.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta stendur í stað á milli vikna, en á sama tíma í fyrra hafði fjögurra vikna meðalvelta lækkað um 17% milli ára. Í byrjun apríl lækkaði fjögurra vikna meðalvelta í fyrsta sinn á milli ára síðan í byrjun nóvember sl.

Tólf vikna meðalvelta hækkar þó lítillega á milli vikna eða um 4 milljónir króna, og nemur nú 1.370 milljónum króna.

Þá má skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði en hún er nú 1.420 milljónir króna á viku. Fyrir ári síðan nam 12 mánaða meðalveltan 1.598 milljónum króna og hefur því dregist saman um 11% á milli ára. Þá má geta þess að um miðjan janúar í fyrra fór 12 mánaða meðalvelta í fyrsta skipti undir 2 milljarða frá því febrúar 2003.

Í síðustu viku:

Alls var 56 kaupsamningum þinglýst í vikunni, samanborið við 48 samninga í vikunni á undan. Alls var 39 samningum þinglýst að meðaltali á síðasta ári en 46 samningum að meðaltali á viku það sem af er þessu ári.

Meðalupphæð á hvern samning lækkar þó á milli vikna og nam í vikunni 25,6 milljónum króna, samanborið við 31,3 milljónir króna í vikunni á undan. Meðalupphæð á hvern samning á síðasta ári var 34,6 milljónir króna en það sem af nemur þessu ári nemur meðalupphæðin 29,5  milljónum króna.

Meðalupphæð á hvern samning hafði þokast upp á við síðustu vikur en lækkar nú og er á svipuðu róli og í byrjun apríl. Í byrjun mars var meðalverð á hvern samning um 30,7 milljónir króna en lækkaði þá niður í 26,5 um miðjan mars. Síðan þá hefur það að mestu þokast upp á við og hafði hækkað síðustu fjórar vikur fram að þessari viku.