Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu jókst töluvert á milli í vikunni, eða um 36% milli vikna en hafði í vikunni á undan aukist um 6% á milli vikna.

Þannig nam veltan í vikunni 1.625 milljónum króna samkvæmt tölum frá Fasteignaskrá Íslands en í vikunni á undan nam veltan 1.346 milljónum króna.

Fjögurra vikna meðalvelta lækkar þó milli vikna, þriðju vikuna í röð. Þannig nemur fjögurra vikna meðalvelta nú 1.329 milljónum króna og hefur lækkað um rúmar 160 milljónir króna á fjórum vikum. Mest hefur fjögurra vikna meðalvelta verið tæplega 1.600 milljónir á þessu ári en það var um miðjan maí.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta hefur nú lækkað um 11% milli ára en á sama tíma í fyrra hafði fjögurra vikna meðalvelta lækkað um 76% milli ára.

Tólf vikna meðalvelta hækkar þó enn á milli vikna, fjórtándu vikuna í röð, nú um 63 milljónir króna, og nemur 1.398 milljónum króna. Tólf vikna meðalvelta hefur þó dregist saman um 36% milli ára en hafði á sama tíma í fyrra dregist saman um 67% milli ára.

Ársbreyting á vikuveltu hefur aukist um 36%. Rétt er þó að hafa í huga að velta á fasteignamarkaði getur sveiflast nokkuð milli vikna og því er réttara að skoða fleiri vikur saman líkt og gert er hér að ofan.

Til gamans má þó skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði. Hún er í dag 1.160 milljónir króna, og hefur lækkað jafnt og þétt s.l. 28 vikur, samanborið við 2.634 milljónir króna á sama tíma í fyrra og hefur því lækkað um 56% milli ára.

Í þessari viku:

Alls var 51 kaupsamningi þinglýst í vikunni en 45 samningum var þinglýst í síðustu viku. Alls hefur 38 samningum verið þinglýst að meðaltali á viku á þessu ári.

Meðalupphæð á hvern samning hækkar á milli vikna og nemur nú 31,9 milljónum króna, samanborið við 29,9 milljónir króna í vikunni á undan. Meðalupphæð á hvern samning frá áramótum er nú 32,1 milljón króna.