Um 14.500 kaupsamningum var þinglýst árið 2007 og námu heildarviðskipti með fasteignir um 360 milljörðum króna, sem er mesta velta á fasteignamarkaði á Íslandi á einu ári, samkvæmt því sem segir á vef Fasteignamat ríkisins.

Meðalupphæð á hvern kaupsamning var um 25 milljónir króna. Árið 2006 var veltan 269 milljarðar króna, fjöldi kaupsamninga rúmlega 11.700 og meðalupphæð á hvern kaupsamning um 23 milljónir króna. Heildarvelta fasteignaviðskipta hefur því aukist um 30% á milli ára og fjöldi kaupsamninga aukist um rúmlega 20%

Sé litið til höfuðborgarsvæðisins stefnir heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga í um 280 milljarða króna, fjöldi kaupsamninga verði um 9.600 og meðalupphæð kaupsamnings verði tæpar 29 milljónir króna. Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2006 var rúmlega 200 milljarðar króna og fjöldi kaupsamninga tæplega 7.500. Meðalupphæð samninga var því um 27 milljónir króna.