Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,77 stig í júní, sem felur það í sér að 12 mánaða verðbólga er nú 3,9%. Um 81% af þessari hækkun má rekja til tveggja liða: Húsnæði, hiti og rafmagn sem á sök 42% af greindri hækkun
Ferðir og flutningar sem á sök á 29% af greindri hækkun. Þetta þýðir, að mati greiningardeildar KB banka að hækkun á verðbólga síðustu 12 mánaða hefur að lang mestu leyti verið rekin áfram af verðhækkunum á fasteignum og olíu.

"Ef verðstöðugleiki hefði ríkt á þessum tveimur mörkuðum á þessum tíma hefði ársverðbólga aðeins verið 1,2%. Þetta þýðir með öðrum orðum að verðbólgan er enn mjög afmörkuð. Raunar svo afmörkuð að velta má fyrir sér hvort verðhækkanir á þessum tveim vörutegundum geti talist raunveruleg verðbólga ? sem samkvæmt skólabókarskilgreiningu ? er almenn verðhækkun á vörum og þjónustu. Fyrir þá sem álíta að fasteignamarkaður sé ekki ofmetinn við núverandi aðstæður eru þessar hækkanir aðeins breytingar á hlutfallsverði. Fasteignir eru orðnar aðeins dýrari miðað við aðrar vörur í landinu og um málið er lítið annað að segja. Fyrir aðra sem álíta að fasteignamarkaðurinn sé ofmetin er þetta aðeins tímabundin hækkun sem mun leiðréttast þegar húsnæði, sem nú er í byggingu, kemur á markaðinn. Um olíuverð er það segja að það hefur ávallt verið miklum sveiflum undirorpið. Miklar hækkanir hafa ávallt gengið til baka fyrr eða síðar og þeim verður að taka eins og hverju öðru hundsbiti meðan þær vara," segir í Hálffimm fréttum bankans.

Þar er bent á að þetta þýðir þó ekki að núverandi verðbólguskot sé hættulaust. Þvert á móti. Í fyrsta lagi er hætta á því að verðbólguvæntingar hliðrist upp á við og ýmsar aðrar hækkanir velti út í verðlagið. Fyrirtæki landsins standa reglulega frammi fyrir ákvörðunum um verð og kostnað og það er mun hægara að hækka verð á sínum eigin vörum ef allt annað virðist vera að hækka á sama tíma. Í vísitölumælingunni fyrir júní má jafnvel greina leitni í þá átt að verðbólgan sé að fara að breiða úr sér. Í öðru lagi er hætta á því að auknar kröfur komi fram um launahækkanir til þess að hækkun vísitölunnar og uppsagnarákvæði þeirra kjarasamninga sem þegar verið gerðir verði virkt. Í þriðja lagi geta miklar hækkanir á fasteignamarkaði skapað hættu á eignabólu sem vegur að fjármálastöðugleika. Hægt er að deila um hvort fasteignamarkaðurinn sé nú ofmetinn eður ei. "Hins vegar ættu fáir að velkjast í vafa um það að ef hækkanirnar halda mikið lengur áfram verður verðið komið mun hærri en sætir þjóðhagslegri skynsemi," segir í Hálffimm fréttum.

Aðgerðir Seðlabankans

KB banka-menn benda á að við núverandi aðstæður sé þörf á peningalegu aðhaldi. Flest bendir til þess að Seðlabankinn muni veita það aðhald með frekari vaxtahækkunum, enda jaðrar verðbólgan nú við efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins sem er 4%. "Árangur síðustu vaxtahækkana hefur verið góður að því leyti að hækkun skammtímavaxta hefur getið af sér hækkanir á langtímavöxtum, sem skipta mestu fyrir húsnæðismarkaðinn. Það þýðir með öðrum orðum að leiðni peningamálastefnunar hefur verið góð. Það á síðan eftir að koma ljós hve mikil áhrif hærri vextir hafa á kauphegðun Íslendinga," segir í Hálffimm fréttum.